Föstudagspælingar
Í dag er föstudagur enn á ný. Ég vaknaði klukkan 7:30 í morgun, sem ætti að teljast met hjá svefpurkum eins og mér. Ég mætti í Hugarafl kl 8:30 í morgun og er nú í tölvunni þar. Ég er svo glöð að eiga mér griðastað hérna. Hérna starfar gott fólk sem er alltaf tilbúið að aðstoða mann ef eitthvað bjátar á og einnig sækir gott fólk þennan stað. Ég hef eignast marga góða vini hérna síðustu mánuði og sérstaklega innan Unghuga, sem eru samtök ungs fólks innan Hugarafls.
Síðastliðið ár hefur verið ár breytinga hjá mér, sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar og enn aðrar hafa verið nauðsynlegar. Ég lít ekki á lífið sem kvöð lengur, þeas ekki núna, og stefni á það að gera það aldrei aftur.
Ég vona að þið 2 sem lesið þennan pistil eigið góða helgi og munið að klæða ykkur vel í kuldanum :)
Lost in time
Að vera þunglyndur í heilan áratug, að vera fastur inni í skelinni sinni og þora varla að líta út fyrir hana, getur valdið einhvers konar tímamissi. Að minnsta kosti finn ég fyrir því. Þessi 11 ár síðan ég "greindist" þunglynd og félagsfælin hafa fokið fram hjá vitund minni. Vissulega man ég sitthvað eins og hver annar frá þessum tíma, en einhvern veginn líður mér ekki eins og svona langur tími sé liðinn. Mér finnst ég ekki vera heilum 11 árum eldri en þegar ég fékk greininguna tvítug að aldri. Mér finnst ég vera búin að missa tíma. Mörg ár. Ár sem ég hefði átt að njóta þess að vera ung og vera hamingjusöm. Þessi ár fóru allflest í vanlíðan, lágt sjálfmat, sjálfsvígshugsanir, vanmáttarkennd og frestun. Á þessum árum tókst mér samt sem áður að ljúka stúdentsprófi og öllum námskeiðum sem þarf til að öðlast BA gráðu í Sagnfræði, fyrir utan BA ritgerðina sjálfa. Hana á ég eftir. Og auðvitað fresta ég henni.
Ég sé mikið eftir þessum árum þegar ég lít til baka. En sorg vegna glataðs tíma er eitthvað sem hefur ekkert upp á sig. Þennan tíma mun ég aldrei fá aftur, sama hversu sorrí ég er yfir því að hafa misst af honum. Núna er ég að leggja mig fram við að hugsa um daginn í dag, daginn á morgun og kannski ekki á morgun heldur hinn.. Lengra ætla ég ekki að hugsa núna. Mikið skrambi er það erfitt, því maður vill alltaf vera að gera einhver plön fram í tímann. En það sakar ekki að reyna.