Lost in time
Að vera þunglyndur í heilan áratug, að vera fastur inni í skelinni sinni og þora varla að líta út fyrir hana, getur valdið einhvers konar tímamissi. Að minnsta kosti finn ég fyrir því. Þessi 11 ár síðan ég "greindist" þunglynd og félagsfælin hafa fokið fram hjá vitund minni. Vissulega man ég sitthvað eins og hver annar frá þessum tíma, en einhvern veginn líður mér ekki eins og svona langur tími sé liðinn. Mér finnst ég ekki vera heilum 11 árum eldri en þegar ég fékk greininguna tvítug að aldri. Mér finnst ég vera búin að missa tíma. Mörg ár. Ár sem ég hefði átt að njóta þess að vera ung og vera hamingjusöm. Þessi ár fóru allflest í vanlíðan, lágt sjálfmat, sjálfsvígshugsanir, vanmáttarkennd og frestun. Á þessum árum tókst mér samt sem áður að ljúka stúdentsprófi og öllum námskeiðum sem þarf til að öðlast BA gráðu í Sagnfræði, fyrir utan BA ritgerðina sjálfa. Hana á ég eftir. Og auðvitað fresta ég henni.Ég sé mikið eftir þessum árum þegar ég lít til baka. En sorg vegna glataðs tíma er eitthvað sem hefur ekkert upp á sig. Þennan tíma mun ég aldrei fá aftur, sama hversu sorrí ég er yfir því að hafa misst af honum. Núna er ég að leggja mig fram við að hugsa um daginn í dag, daginn á morgun og kannski ekki á morgun heldur hinn.. Lengra ætla ég ekki að hugsa núna. Mikið skrambi er það erfitt, því maður vill alltaf vera að gera einhver plön fram í tímann. En það sakar ekki að reyna.
2 Comments:
Elsku systir þú ert falleg, klár, góð, æðisleg og ótrúlega dugleg og ég hef fulla trú á þér og já ég er sammála þér með þennan áratug hann fór út í veður og vind hjá mér líka en það þýðir ekkert að spá í það reynum bara að njóta þess sem er núna og reyna að gera sem mest úr þeim tíma :) veit þú átt eftir að spjara þig mín kæra og ef það er eitthvað þá veistu hvar ég er.
knús og kossar frá
stórustóru systur.
Elsku frænka.
Gott hjá þér að blogga um líðan þína. Langaði að segja þér að það liðu 10 ár frá því að ég kláraði öll námskeið í HÍ og þar til ég lauk BA-ritgerðinni minni. Það var mikið átak að hafa samband við HÍ og fá allt metið og ég varð að fresta skilum um eina önn en það hafðist að lokum. Hef fulla trú á þér.
kv. Sigga I.
Skrifa ummæli
<< Home