Clue?
Jæja.. Þetta er ekki að ganga.
Best að ég komi nú með smávegis vísbendingu:
Þessi bók er í tveimur hlutum. Þetta er fyrri hlutinn. Hún fjallar um frægan mann innan Íslandssögunnar. Það er til lag um þennan mann.
Höfundur bókarinnar er eitt ástsælasta skáld Íslendinga.
Bókmenntagetraunin Fræga
Jæja Félagar.
Loksins hefur hin margumbeðna Bókmenntagetraun göngu sína á ný.
Eftir að hafa grúskað í bóksafni Dj-Shit, þá fann ég hérna alveg hreint ágætis bókareintak sem flestir ættu nú að þekkja... Við skulum amk sjá til.. Gjörið svo vel:
"Á ströndinni við ysta haf ólu þrjátíu kynslóðir aldur sinn. Til þess að verjast næðingunum, sem nístu merg og bein, reistu þær sér hreysi úr torfi og grjóti, klæði sín ófu þær úr ull og skýldu á þann hátt nekt sinni. Á smákænum öfluðu þær sjófangs; fóður handa nautpeningi fengu þær af túnbleðlum, sem þær ræktuðu kringum híbýli sín. Lífsbaráttan var hörð og krafðist þrautseigju. Sólarlítil sumur og langir ísavetur reyndust oft ofjarlar snauðra búenda og skópu þeim stór örlög og þung. En þó að alltaf væri höggvið í sama knérunn og kynslóðir hafi hrunið til moldar, eins og brimskaflarnir að ströndinni, heldur aldrei tekizt að afmá þessar norðlægu byggðir. Enn sjást rislágir bæir undir fjallshlíðunum og úti við sjó, enn stingur bóndinn spaða sínum niður í moldina þegar vorar, enn kastar fiskimaðurinn öngli í djúpið og dregur þorsk í búið."
Útsala=kaupæði
Ég fór á útsölu í Skífunni í gær. Keypti mér 2 geisladiska og einn dvd. Maður íhugar samt oft hvort maður ætti að vera að kaupa sér tónlist, þar sem hægt er að ná í þetta allt saman á netinu. Ég reyndi nú um daginn að nota þetta odc forrit þarna, en auðvtiað kann ég ekkert á þetta.. og skil þetta ekki heldur. Held ég ráfi frekar um útsölurnar, amk til að byrja með, þangað til ég finn einhvern sem nennir að kenna mér á þetta.
Hvernig er það samt með útsölur.. þetta orð kemur blóðinu alveg á hreyfingu hjá fólki allir þeystast til eins og mannýg naut í nautaati... Þetta er eitt mesta töfrarorð í íslensku máli:
útsala.. það er eitthvað tælandi við það... já og auðvitað líka "afsláttur" og " hálfvirði". Ég læt umsvifalaust glepjast. Ég er ekkert skárri en almúginn..
Meira samt um þessi reyfarakaup mín.. Tónlist úr kvikmyndinni Woman on top.. einkar suðrænt og seiðandi.. algjör latínó fílingur.. ljúft og fínt. Mæli með henni fyrir rómantíska kvöldstund.. eða bara kvöldstund.. ekki það að ég sé sérfræðingur í rómantík.. ætli ég sé ekki frekar anti-sérfræðingur..?
Hvernig væri annars að ég færi að taka upp á bókmenntagetrauninni frægu aftur? Hefur einhver áhuga á því?
Ég skal reyna að standa mig betur í þessu bloggi (ekki örvænta Sigga mín, ég er enn hérna ).. það er oft bara svo fjandi erfitt að koma sér í gang á ný.
Au revoir og A bientot.
Rok í Reykjavík
Hvað er þetta með veðrið?
Um leið og maður yfirgefur Bæ Dauðans, þá ákveður veðrið að reyna sitt besta til að hrekja mann aftur þangað. Reyndar er eitt gott við þetta... vindurinn hjálpar manni að vera fljótari í skólann.. amk aðra leiðina, og svo bara meiri líkamsrækt heim.. gott fyrir okkur sófadýrin.
Stutt í dag.. meira seinna.. timburmenn á morgun.. jibbedí!
Hvað er að gerast??
Jæja jæja jæja.
Það er enn líf í kerlu!
Eftir langa pásu frá bloggheimum hefur Dj-Shit ákveðið að snúa aftur.
Nuna er maður barasta mættur í borgina og kominn í skóla. Þvílíkt og annað eins. Ansi gaman að'essu. Skólinn byrjaður.. Fullt af liði sem maður þekkir ekki neitt.. byrjar sama sagan á ný. Finnst reyndar ansi gaman að fylgjast með sumum bekkjarfélögunum... Það eru auðvitað margar tegundir háskólastúdenta og mér þykir einkar gaman að giska á hver tilheyrir hvaða tegund..
Tegund 1: Sá umkomulausi.
Þetta er sá háskólastúdent sem ég þekki best, því löngum hef ég tilheyrt þessari tegund. Nýskriðinn úr menntaskóla, og/eða úr föðurhúsum og ekki vanur þessu stóra batteríi sem háskólinn er. Allir vinirnir í öðrum skólum langt í burtu og sá umkomuausi reynir sitt besta til að passa inní hópinn, en fílar sig samt sem einhvers konar lóner... Segir fátt eða ekkert í tímum, þó hann eigi til að vita um hvað er rætt. Breytist stundum í hið versta partídýr við inntöku etanóls..
Tegund 2: Besserwisserinn
Þessi tegund fer yfirleitt í taugarnar á hinum tegundunum. Þetta er sá sem hefur alltaf svar á reiðum höndum þegar kennarinn spyr um eitthvað.. ekki alltaf rétt svar, en þörfin fyrir að tjá sig í 60-70 manna hóp hefur yfirleitt yfirhöndina.. "Sniðug" tilsvör eru oft vinsæl hjá þessari tegund, sem er oftast af karlkyni.
Tegund 3: Öldungurinn.
Þetta er tegund sem hefur farið ört fjölgandi í námsstofnunum landsins undanfarin ár. Yfirleitt mennaður í einhverju allt öðru en því sem hann er að læra núna og er að láta gamlan draum rætast. Fær alltaf betri einkunnir en við hin..
Tegund 4: Nýaldarhippinn.
Þessi tegund er reyndar oft innan hinna tegundanna líka, en mér fannst vert þess að minnast aðeins á hana. Gardínur og gömul föt úr hjálpræðishernum er oft vinsæll fatakostur meðal tegundarinnar og einnig "vintage" föt á uppsprengdu verði úr Spútnik eða öðrum svipuðum verslunum. Þessi hópur á sér yfirleitt einhvern sérstakan stað þar sem hann kemur saman, þá oftast kaffihús eða annar álíka samkomustaður þar sem hægt er að fá sér kaffi frá Jövu og upprúllaðar sígarettur.
Tegund 5: Upprennandi Jakkafataklónið.
Þessi tegund leggst reyndar sjaldan svo lágt að nema fag sem ekki talið er arðbært í framtíðinni. Því eru fög í hugvísindum ekki vinsæl meðal þessarar tegundar, nema þá lögfræðin, sem telst til hugvísinda. Meðlimir þessarar tegundar halda oftast hópinn og hafa sinn eigin pabbastráka-og stelpu klúbb sem reynir að lokka fleiri til sín á þeirra band. Þessi tegund einkennist oftast af dýrum klæðnaði og farartækjum.
Þetta eru þær tegundir sem ég hef uppgötvað hingað til, en ég skal láta vita ef ég finn fleiri.
God Speed. :)