Svarthol
Desember er versti mánuðurinn í mínu tiltölulega grámóskulega ári. Ég vildi helst geta farið að sofa í byrjun aðventu og vaknað aftur eftir þrettándann. Ég get ekki fundið gleði hjá mér við jólaljós, jólalög eða jólainnkaup. Svo er að að skreyta og gera allt jólalegt sem mörgum þykir svoooo gaman. Hvað er í gangi? Ég þyrfti auðvitað að byrja á því að þrífa, sem er mér lífsins ómögulegt nema í litlum einingum, svo að ákveða hvert draslið á að fara, hengja það upp. Jibbí, verki lokið. En nei nei. Það þarf að taka þetta niður aftur.. já auðvitað. Svo þegar manni tekst loks að ná frjárans draslinu niður, setja það í kassa og geyma einhvers staðar, þá eru bara aftur komin önnur fjandans jól.
Ég slepp aldrei frá þessum fjanda. Svo er það auðvitað það skemmtilegasta af öllu. Að vera "charity case" þar sem maður er einn. Að vera boðið hingað og þangað af því að maður er nú einn. Vei.
Einu sinni var desember mánuður mikilla anna hjá mér. Ég var í prófum í háskólanum, var partur af litlum hóp sem sat saman og lærði undir próf. Þá hafði ég tilgang. Að læra undir próf, fara í próf, vera venjuleg manneskja í háskólnámi.
Í dag get ég ekki einu sinni lesið eina grein í tímariti vegna einbeitingarskorts. Að lesa var uppáhaldsiðjan mín.
Mér finnst ég alveg mega hata lífið núna.
Garg
Það er miðvkudagur. Hérna eru læti. Einn fuglinn minn (Móni) er að reyna svo mikið við kærustuna sína (Gulur) að görgin hans smjúga gegnum merg og bein.... Annað parið liggur á eggjum. Kallinn (Nappi) liggur samviskusamlega á eggjunum þegar kerlingin (Sóley) fer að fá sér að borða, well, eða ráðast á hina fuglana :) Hin tvö (Fína og Valgerður (kk)) eru bara glöð að fá athygli og mat. Litlu snúllurnar :)
Föstudagspælingar
Í dag er föstudagur enn á ný. Ég vaknaði klukkan 7:30 í morgun, sem ætti að teljast met hjá svefpurkum eins og mér. Ég mætti í Hugarafl kl 8:30 í morgun og er nú í tölvunni þar. Ég er svo glöð að eiga mér griðastað hérna. Hérna starfar gott fólk sem er alltaf tilbúið að aðstoða mann ef eitthvað bjátar á og einnig sækir gott fólk þennan stað. Ég hef eignast marga góða vini hérna síðustu mánuði og sérstaklega innan Unghuga, sem eru samtök ungs fólks innan Hugarafls.
Síðastliðið ár hefur verið ár breytinga hjá mér, sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar og enn aðrar hafa verið nauðsynlegar. Ég lít ekki á lífið sem kvöð lengur, þeas ekki núna, og stefni á það að gera það aldrei aftur.
Ég vona að þið 2 sem lesið þennan pistil eigið góða helgi og munið að klæða ykkur vel í kuldanum :)
Lost in time
Að vera þunglyndur í heilan áratug, að vera fastur inni í skelinni sinni og þora varla að líta út fyrir hana, getur valdið einhvers konar tímamissi. Að minnsta kosti finn ég fyrir því. Þessi 11 ár síðan ég "greindist" þunglynd og félagsfælin hafa fokið fram hjá vitund minni. Vissulega man ég sitthvað eins og hver annar frá þessum tíma, en einhvern veginn líður mér ekki eins og svona langur tími sé liðinn. Mér finnst ég ekki vera heilum 11 árum eldri en þegar ég fékk greininguna tvítug að aldri. Mér finnst ég vera búin að missa tíma. Mörg ár. Ár sem ég hefði átt að njóta þess að vera ung og vera hamingjusöm. Þessi ár fóru allflest í vanlíðan, lágt sjálfmat, sjálfsvígshugsanir, vanmáttarkennd og frestun. Á þessum árum tókst mér samt sem áður að ljúka stúdentsprófi og öllum námskeiðum sem þarf til að öðlast BA gráðu í Sagnfræði, fyrir utan BA ritgerðina sjálfa. Hana á ég eftir. Og auðvitað fresta ég henni.
Ég sé mikið eftir þessum árum þegar ég lít til baka. En sorg vegna glataðs tíma er eitthvað sem hefur ekkert upp á sig. Þennan tíma mun ég aldrei fá aftur, sama hversu sorrí ég er yfir því að hafa misst af honum. Núna er ég að leggja mig fram við að hugsa um daginn í dag, daginn á morgun og kannski ekki á morgun heldur hinn.. Lengra ætla ég ekki að hugsa núna. Mikið skrambi er það erfitt, því maður vill alltaf vera að gera einhver plön fram í tímann. En það sakar ekki að reyna.
Að vera jákvæð
Það er komið haust í Reykjavík og ég þykist enn ætla að blogga áfram..
Þessa dagana er ég að vinna í kvíðanum. Ég hef kviðið öllum fjandanum á minni lífsleið. Ég veit ekki hvort ég ætti að fara í einhverjar upptalningar, en listinn er æði langur. En með því að reyna að fókusa á einn dag í einu, ekki hugsa of langt inn í framtíðina, þá kemst ég af. Hugarafl, Unghugar og fuglarnir mínir halda mér við viðfangsefnið. Ég er rosalega heppin að eiga svona góða að, hvort sem það eru fuglar, stofnanir eða mannverur.
Ég reyni að halda í bjartsýnina sem mér hefur hlotnast upp á síðkastið og held áfram að vona hið besta.
Svartnættið getur verið sæmt, en það getur birt til.
Hin eilífa barátta
Ég hef eytt alltof miklum tíma í að bíða. Sem barn bíður maður eftir því að verða stór. Svo er það biðin eftir því að verða sjálfráða, fá bílpróf, komast í Ríkið, komast inn á skemmtistaði, útskrifast úr skóla, fá vinnu, komast í háskóla.. og svo lengi mætti telja...
Núna bíð ég eftir mánaðarmótum, því þá fæ ég útborgað, en einnig bíð ég þess að verða nógu hress til að skrifa lokaritgerðina mína. Annar hluturinn sem ég bíð er eitthvað sem kemur á fyrirfram áætluðum tíma. Hitt ekki. Það fer alveg eftir mér. Ég verð að taka stjórnina. Ég þarf að vinna í því að batinn komi. Ég get ekki setið og beðið eftir honum, eins og ég get hangið og beðið eftir því að Tryggingastofnun borgi út endurhæfingarlífeyrinn minn, hann kemur ekki nema ég gefi mig alla í það að ná honum. En hvað geri ég til þess? Það er engin uppskrift að bata til. Ef ég tek eina pillu á dag í 6-8 vikur, drekk tvo lítra af vatni og geng 5 kílómetra daglega mun það ekki laga þunglyndið, kvíðann, félagsfælnina. Mikið vildi ég að það væri svo.
Núna er það einn dagur í einu.. ein klukkustund í einu ef dagurinn er of stórt verkefni. Það er stundum stórmál að fá sér að borða, að fara í sturtu, að kveikja á tölvunni. Hver klukkustund sem ég hef eytt í eitthvað jákvætt er sigur. Ef ég held áfram að eyða klukkustundunum mínum í jákvæða hluti, þá þarf ég ekki að bíða, þá er ég að vinna. Ég veit að ég mun aldrei geta slappað af og sagt, "jæja, núna er mér batnað og ég mun aldrei fá þennan sjúkdóm aftur", þetta mun alltaf vera vinna.
En ég hef tekið þá ákvörðun að ég vil frekar vinna fyrir batanum og vinna að honum alla ævi, frekar en að tapa og segja skilið við baráttuna. Eftir allt þetta get ég ekki gefist upp.
3 árum síðar
Að blogga er svooo 2005!
Jæja, mig vantar útrás fyrir mín ósögðu orð og mér leið alltaf vel hérna á blogger. Athuga með þetta dæmi.
Mér líður eins og ég hafi stokkið inn í tímavél árið 2007 og lent hérna 2010 og búist við fljúgandi bílum og sjálfbærum menningarheimi. Hversu rangt ég hafði fyrir mér...
Lífið eftir þrítugt er ekki ósvipað lífinu eftir tvítugt, nema jú, maður kvíðir því núna að verða 40 ára í staðinn fyrir að verða 30 ára.. þetta er bara einn stór hringur sem endurtekur sig í sífellu.
Hvað svo sem vill ganga á hjá manni í rottukapphlaupinu, þá er eitt víst. Þú munt aldrei sleppa frá bankanum.