Ferðalangurinn
Það hefur gerst svo mikið á þessum eina mánuði sem hefur liðið síðan síðast var bloggað hér á þessari síðu.Ég lagði í víking með foreldrum, systur og mági til Lundúnaborgar þann 25. nóvember. Þar var margt og mikið að sjá og gera fyrir lítinn Íslending sem alinn er upp í 3000 manna bæ (þorpi á enska vísu) og býr núna í 100 000 manna borg (bæ á enska vísu).
Byrjað var á því að fara í The London Eye, eftir að búið að var að henda af sér farangrinum á hótelið. Það var alveg magnað að standa í 135 metra hæð og horfa yfir London, Thames ána, The Houses of Parliament og allt bara.. í ljósaskiptunum. Og svo sló eldingu niður rétt frá hjólinu. Allt saman mjög merkileg sjón fyrir áðurnefndan lítinn Íslending(sem kann ekki enn almennilega á breskar biðraðir). Farið var út að borða nokkrum sinnum því jú auðvitað vera Íslendingar að borða eins og aðrar þjóðir. Madame Tussaud's.. Loksins hitti ég hetjuna mína og það náðist sko á mynd í þetta skiptið(síðast var ekkert flass á myndavélinni). Hann var reyndar úr vaxi(í bæði skiptin), þar sem frummyndin er því miður ekki meðal vor lengur. Núna hlýtur einhver að vera búinn að geta sér til um hver þessi merkismanneskja er/var.... jú rétt er það, þetta var Freddie Mercury, hver annar? Bítlabúð, Sherlock Holmesbúð, Baker Street, Oxford, Selfridges á Oxford Street- ég hafði ekki einu sinni efni á plastpokunum þar inni.. vorum öll fljót að koma okkur þaðan út og í mikið betri búð sem kallast M&S's á tungu innfæddra, eða Marks & Spencer's á alþjóðamálinu. British Museum..úff ferlega dóu fæturnir mínir þá.. en hrikalega var gaman að sjá þetta. Þar sem ég nem nú bæði sagnfræði og fornleifafræði var þetta eins og að vera kominn í móðurskipið. Fyrir um 2 mánuðum fékk ég að handleika hluti frá landnámsöld í tíma í fornleifafræðinni, þótti mér það mjög merkilegt. En í British Muesum fékk ég að halda á 150 000 ára gamalli handöxi úr tinnu, ásamt hlutum frá tímum Rómverja í Bretlandi(ca.300-500 e.kr.)... vá...engin orð til að lýsa þeirri tilfinningu...
En þá eru það aðalatriðin. We Will Rock You sýningin og George Michael tónleikar.
Þegar ég kom upp úr Tottenham Court Road neðanjarðarlestarstöðinni blasti við mér hin fegursta sjón hvers Queen aðdáanda. Gyllt 4-5 metra há stytta af Guði, Freddie þ.e.as.-bannað að gera gulllíkön af hinum eins og stendur í Biblíunni-, stóð fyrir ofan innganginn á Dominion Theatre. . Litli Queen aðdáanda Íslendingurinn hafði náttúrurlega aldrei séð annað eins og var næstum því búinn að ganga fyrir strætó.. En að sýningunni. Meiriháttar. Hrikalega gaman. Húmor og frábær tónlist(auðvitað). Söngvararnir voru alveg einstaklega góðir og söguþráðurinn var skemmtilega spunninn saman við flest vinsælustu lög Queen. Ég gekk mjög glöð út að sýningu lokinni.
George Michael í Earls Court þann 28. Nóvember 2006.
Ókei ég skal viðurkenna það... George Michael er æðislegur! Ég hef nú reyndar alltaf vitað það, búin að vera aðdáandi frá barnæsku. Mikið hrikalega var gaman hjá okkur fjölskyldunni, við klöppuðum, sungum, dönsuðum, grétum og hlógum með George. Þetta var bara frábært. Hann er einstakur flytjandi, ekki feilnóta hjá honum og hann hreif salinn (20-40 þús manns) alveg með sér, oftast einn á sviðinu. Þetta er svo sannarlega besta gjöf sem ég hef fengið, mamma og pabbi- þið eruð best.
Þessi ferð var frábær í alla staði, þrátt fyrir að við töfðumst í 1,5 sólarhring á Stansted... ég var ofsalega hrifin af því að fá að gista á Radison SAS hótelinu við flugvöllinn þessa aukanótt.. rosa lúxus hótel sem litli Íslendingurinn hefur aldrei kynnst áður(fékk sverðfisk í matinn, very good). Ég kom sæl og glöð heim til Villans míns að ferð lokinni. Svo tók desember við með sínum heljargreipum, prófum ritgerðum og jólaannríki...
Jæja.
Gleðileg jól allir. Mín verða það ábyggilega.
5 Comments:
Vá, gaman úti í London, komin 5 ár síðan ég fór í Earls Court á Þú-líka. Einnig er ég búin að vera á haus í vetur í mínu námi og ekkert komið í borg óttans. Sendi engin kort þannig að ég óska ykkur hérmeð gleðilegra jóla og sjáumst hress og kát fyrir Westan!
Vá skemmtileg ferðasaga :)
Gleðileg jól Sigrún mín :)
Kveðja kristín.
Vá frábært að þú skyldir skemmta þér svona vel :)þetta hefur greinilega verið frábær ferð í alla staði, vildi að ég hafi verið með, þú segir alltaf svo skemmtilega frá að maður er bara með þér í ferðinni í huganum :) knús, kossar, jólakveðja og Gleðilegt ár :*****
Sæl mín kæra systir er ekkert að gerast hjá þér ?? Hér er flensan búin að taka yfirhöndina !! Óli og Böðvar Ingi liggja báðir og fleiri eiga örugglega eftir að liggja í valnum td. undirrituð sem er vön að taka allar pestir og alveg örugglega þessa flensu því ég gleymdi að láta bólusetja mig :S bestu kveðjur úr pestarbælinu í Árbænum.
úff, ég kem þá definately ekki í heimsókn næstu daga.. hef ekki mikinn áhuga á að smitast af einhverri óværunni.. of mikið að gera í skólanum til þess- þess vegna er ekkert bloggað.. reyndi það í fyrradag en bloody browserinn lokaði sér þegar ég var búin að skrifa þvílíku greinina og var að fara að pósta hana. Gafst upp á vitleysunni og gerði eitthvað skynsamlegra eins og að leggja kapal. Góðan bata.
Skrifa ummæli
<< Home