fimmtudagur, október 19, 2006

Í minningu Línu ömmu. 16.09.1922-10.10.2006

Hún elsku Lína amma mín dó í síðustu viku og var jörðuð í gær. Ég setti hér inn nokkur orð í minningu hennar, en megnið af þessu sendi ég aðeins breytt í minningargrein morgunblaðsins.

Amma gegndi stóru hlutverki í lífi okkar systkinanna á Ísafirði og þeir voru ófáir sunnudagarnir sem hún var tilbúin með heitt súkkulaði og pönnukökur fyrir okkur eftir langan skíðadag. Amma tók okkur alltaf opnum örmum, sama hvenær sólarhringsins við komum til hennar, því alltaf hafði hún tíma fyrir okkur.
Ég kom oft til ömmu eftir að ég var búin í skólanum og alltaf var hún tilbúin með heitan mat fyrir mig og svo hjálpuðumst við að með uppvaskið eftir matinn meðan við spjölluðum um lífið og tilveruna. Amma hlustaði áhugasöm á mig meðan ég sagði henni frá því sem gerðist í skólanum, ráðlagði mér þegar mér hafði lent upp á kant við vini eða skólafélaga og huggaði mig þegar ég var leið.
Ég átti góðar stundir með ömmu minni allt frá því að ég var lítil og fram á fullorðinsár. Amma kenndi mér að sauma krosssaum, hjálpaði mér við handavinnuna, sagði mér sögur frá Hornströndum, kenndi mér að reyta arfa og gróðursetja blóm svo eitthvað sé nefnt. Amma kenndi mér einnig að spila Marías og Lönguvitleysu, sem við spilum oft, en í staðinn kenndi ég henni að spila Tunnu, eða Minnisspilið eins og amma kallaði það, en það fannst henni góð æfing fyrir minnið. Allar þessar minningar eru ómetanlegar og ég mun alltaf muna stundirnar sem ég átti með ömmu. Hún var amma mín, besti vinur minn og fastur klettur í lífi mínu.
Amma var mín tengsl við gamla tímann. Hún upplifði miklar breytingar í íslensku þjóðfélagi, breytingar frá sveitalífinu í bæjar- og borgarmenningu, frá bændaþjóðfélagi í nútíma framfaraþjóðfélag. Lífshlaup ömmu var ekki alltaf auðvelt, en hún gafst ekki upp þó að oft hafi dregið ský fyrir sólu. Amma varð ekkja með þrjú börn þegar hún var rétt rúmlega þrítug, þegar afi fórst í Hornbjargi árið 1954. Þá var pabbi minn, Tryggvi, sem var elstur þeirra barna sem amma átti með afa, aðeins 9 ára, Björgvin var 5 ára og Erna 10 mánaða. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður, þá tókst ömmu að halda fjölskyldunni saman með mikilli vinnu og fórnfýsi ásamt hjálp foreldra sinna. Amma er kona sem ég mun alltaf dást að og líta upp til.
Elsku Amma, ég vildi óska þess að ég hefði getað þekkt þig lengur, en lífið er því miður alltof stutt. Þó að áætlanir okkar um að þú ætlaðir að mæta í brúðkaupið mitt ef ég skyldi gifta mig, halda á fyrsta barninu mínu undir skírn, og jafnvel verða 100 ára, skyldu ekki hafa ræst, þá er ég þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér svona vel. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og gert fyrir mig. Þú munt alltaf eiga vísan stað í hjarta mínu og ég mun aldrei gleyma þér.
Hvíldu í friði elsku amma. Þín Sigrún Halla.

4 Comments:

At 20/10/06 12:39, Blogger Sverrir Þór said...

Ég samhryggist þér.
Kveðja, Sverrir Þór.

 
At 20/10/06 14:17, Anonymous Nafnlaus said...

Elsku Sigrún ég samhryggist þér enn og aftur. Ég fór nú bara næstum að gráta við þessa fallegu lesningu.

Kveðja Kristín.

 
At 20/10/06 21:35, Blogger Sigga said...

Vel skrifað hjá þér Sigrún, mér finnst svo gott að hafa kynnst henni, hún var alltaf svo góð við mig og okkur fjölskylduna. Blessuð sé minning hennar.

 
At 21/10/06 13:23, Anonymous Nafnlaus said...

Blessuð sé minning hennar ömmu þinnar, þetta eru falleg og vel skrifuð orð hjá þér elsku systir :) kvj. Harpa.

 

Skrifa ummæli

<< Home