sunnudagur, maí 06, 2007

Frelsi eða ánauð?

Nú líður senn að kosningum og brosandi frambjóðendur með misgóðar colgate tennur og gylliboð keppast um að auglýsa ætlað ágæti sitt. Maður getur ekki sest niður fyrir framan sjónvarp eða flett dagblaði án þess að rekast á skælbrosandi ráðherra, þingmenn og aðra frambjóðendur lofandi landanum öllu fögru. Jón Sigurðsson púllandi eitt stykki Halldór (sem brosti líka bara fyrir kosningar, eins og Jón... einkenni Framsóknarmanna?) og Geir og Þorgerður Katrín svakalega hamingjusöm úti í náttúrunni. Jájá, það er allt saman gott og blessað, en ég get einhvern veginn ekki hugsað um þessa flokka sem hygla stóriðjuframkvæmdum sem lausn á öllum atvinnumálum landans sem einshverskonar náttúrulið. Þau ættu frekar að láta mynda sig í sínu eðlilega umhverfi, í Lexusnum með 100 þúsund króna GSM símann. Núna síðustu árin hefur bilið milli ríkra og fátækra stækkað æ meira og við sjáum í dag svo fáránlegar launaupphæðir "þeirra sem meira mega sín" að manni blöskrar. Mánaðarlaun sumra þessara manna og kvenna eru oft hærri en útivinnandi hjón í meðallaunuðu starfi þéna allt árið. Svo þarf auðvitað ekki að minnast á nýlegan starfslokasamning Bjarna Ármannssonar í Glitni. Yfir 800 milljónir!! Hvað hefur maðurinn að gera með allan þennan pening?? (því ég býst nú við því að hann eigi slatta meira en þetta) Kaupa sér eyju? Hollywood stjörnu? Eða kannski eitt fylgitungl Júpíters? En jæja, það þýðir ekki að öfunda ríka fólkið, enda myndi ég ekki vilja eiga svona mikinn pening. Það er ábyggilega erfitt að fylgjast með öllum þessum tölum og reyna að njóta lífsins í leiðinni. Ég vil mikið frekar verða illa launaður sagnfræðingur.
En já, aftur að komandi kosningum. Kjör öryrkja, aldraðra, landsbyggðarinnar. Maður heyrir fólk tala um óréttlæti og mismunun í þjóðfélaginu ár eftir ár. En alltaf kýs það sama fólkið til að stjórna landinu. Ég er ekki að segja að lausnin muni örugglega koma ef hinir vinstri flokkar ynnu kosningarnar, eða væru við stjórnvölinn, en er samt ekki kominn tími til að láta reyna á það??? Heldur fólk virkilega að Sjálfstæðisflokkurinn hætti að hygla hinum ríkari á kostnað hinna sem minna eiga? Mun Sjálfstæðisflokkurinn rétta hag byggðanna úti á landi sem hafa liðið mikið vegna kvóta sem seldur var burt á 10. áratugnum? Lítum á hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir í stefnumálum sínum: "Sjálfstæðisflokkurinn telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga." AHA! Eins og okkar "blessaða" kvótakerfi. Sem sagt nákvæmlega eins og það er í dag! Hvað hefur það gert okkur gott?
Lítum á hvað Sjálfstæðismönnum finnst um áfengisaldur: "Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár." Ekkert nema atkvæðasmölum meðal ungra kjósenda sem vilja komast fyrr í ríkið. Þetta mun bara verða til þess að áfengisneysla mun aukast meðal yngri aldurshópa. Þarna eru engir almenningshagsmunir að baki, aðeins verið að reyna að hafa áhrif á unga kjósendur.
"Sjálfstæðisflokkurinn vill færa rannsóknir og þróunarverkefni frá opinberum stofnunum til einkaaðila." Þurfum við virkilega meira af blessaðri einkavæðingunni? Á að leggja allar opinberar stofnanir sem stunda rannsóknir niður? Hvað með háskólana? Einkavæða þá líka og hækka skólagjöld um 1000% í kjölfarið? Er menntun aðeins fyrir þá ríku?
"Sjálfstæðisflokkurinn vill færa þau málefni aldraðra sem hafa verið á hendi ríkisins yfir til sveitarfélaganna og efla heimaþjónustu við aldraða meðal annars með samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu." Alltaf gott að henda gamla liðinu yfir á sveitarfélögin. Þá er það ekki í "okkar" höndum heldur sveitarfélaganna. Ekki eru öll sveitarfélög jafn vel stæð og Reykjavík og nágrenni, kæru sjálfstæðismenn.
Á stefnusíðu Sjálfstæðisflokksins kom ég ekki auga á neitt um málefni öryrkja, en það er sá hópur fólks sem hvað verst hefur orðið úti í sjórnartíð núverandi ríkisstjórnar. Það er nefnilega það. Man einhver efitir einu kosningaloforðinu þeirra fyrir síðustu kosningar? "Afnám hátekjuskatts." Já því var hrint í framkvæmd undir eins, en öryrkjarnir máttu svelta og fá minni bætur. Allt fyrir hina ríku. Ég hefði fyrirgefið hátekjuskattsmálið ef þeir hefðu einungis hækkað mörkin, t.d. ef hátekjuskattur legðist á þá sem fengju 800 þúsund eða meira í mánaðarlaun. En það sama féll yfir þá sem höfðu 400 þúsund og 4 milljónir. Hverjum er verið að hygla hérna má ég spyrja?
Ég er ekki að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé alslæmur. Eitthvað gott hafa þeir nú gert. Og Framsóknarflokkurinn sagt já og snúið seglum eftir vindi (enda finnst mér óþarfi að tala um þann flokk, því hann fylgir Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu). Frekar vil ég hafa Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórn heldur en Framsókn, en fremst af öllu ég vil sjá breytingu! Hugsum um annað en flokkstryggð ("já en hann afi kaus nú alltaf...") þessir flokkar eru ekki þeir sömu og þeir voru fyrir 50 árum. Segjum stopp áður en Ísland verður að sama kapítalíska (ó)"velferðarsamfélaginu" og er í Bandaríkjunum.
Hugsum áður en við krossum. Gefum öðrum stjórnmálaflokkum séns til að sýna hvað þeir geta.

7 ummæli:

  1. Nafnlaus6/5/07 20:16

    HEYR HEYR !!

    KVEÐJA,

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus7/5/07 17:03

    Það er naumast hvað þú hefur mikinn áhuga á þessu... :P

    SvaraEyða
  3. Já, það er víst partur af því að verða fullorðinn að hafa áhuga á því sem er að gerast í þjóðfélaginu sem maður byr í.. og ég væri nú lélegur sagnfræðingur ef ég hefði enga skoðun á þessu ;)

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus8/5/07 13:54

    Er það ekki bara hann SJS. sem við kjósum í dag ;) kv. HB

    SvaraEyða
  5. Ég er löngu búin að kjósa, gerði það fyrir vestan um daginn, og ég kaus svo sannarlega RÉTT :)

    SvaraEyða
  6. Allur áróður hefur sem sagt engin áhrif á mig ;)

    SvaraEyða
  7. He he það mátti reyna mín kæra ;)

    SvaraEyða