fimmtudagur, september 23, 2010

Hin eilífa barátta

Ég hef eytt alltof miklum tíma í að bíða. Sem barn bíður maður eftir því að verða stór. Svo er það biðin eftir því að verða sjálfráða, fá bílpróf, komast í Ríkið, komast inn á skemmtistaði, útskrifast úr skóla, fá vinnu, komast í háskóla.. og svo lengi mætti telja...
Núna bíð ég eftir mánaðarmótum, því þá fæ ég útborgað, en einnig bíð ég þess að verða nógu hress til að skrifa lokaritgerðina mína. Annar hluturinn sem ég bíð er eitthvað sem kemur á fyrirfram áætluðum tíma. Hitt ekki. Það fer alveg eftir mér. Ég verð að taka stjórnina. Ég þarf að vinna í því að batinn komi. Ég get ekki setið og beðið eftir honum, eins og ég get hangið og beðið eftir því að Tryggingastofnun borgi út endurhæfingarlífeyrinn minn, hann kemur ekki nema ég gefi mig alla í það að ná honum. En hvað geri ég til þess? Það er engin uppskrift að bata til. Ef ég tek eina pillu á dag í 6-8 vikur, drekk tvo lítra af vatni og geng 5 kílómetra daglega mun það ekki laga þunglyndið, kvíðann, félagsfælnina. Mikið vildi ég að það væri svo.
Núna er það einn dagur í einu.. ein klukkustund í einu ef dagurinn er of stórt verkefni. Það er stundum stórmál að fá sér að borða, að fara í sturtu, að kveikja á tölvunni. Hver klukkustund sem ég hef eytt í eitthvað jákvætt er sigur. Ef ég held áfram að eyða klukkustundunum mínum í jákvæða hluti, þá þarf ég ekki að bíða, þá er ég að vinna. Ég veit að ég mun aldrei geta slappað af og sagt, "jæja, núna er mér batnað og ég mun aldrei fá þennan sjúkdóm aftur", þetta mun alltaf vera vinna.
En ég hef tekið þá ákvörðun að ég vil frekar vinna fyrir batanum og vinna að honum alla ævi, frekar en að tapa og segja skilið við baráttuna. Eftir allt þetta get ég ekki gefist upp.

1 ummæli:

  1. Skil þig svooo vel! Btw, er að fíla endurkomu bloggsins í stað f-ing facebook.

    SvaraEyða